Skólaslit 2015 - Úrdráttur

1.6.2015

Skólaslit 29. maí 2015

Skólastarfið fór bara vel af stað þótt blikur væru á lofti í kjarasamningsmálum kennara.

Dagana 17. – 19. október hélt strengja hópur úr skólanum til Akureyrar
á strengjamót sem haldið var í Hofi. Það var Laufey Pétursdóttir fiðlu- og víólukennari sem hafði veg og vanda af þessari ferð og hélt vel utan um hópinn sinn. Ferðin tókst í alla staði mjög vel. Það er alltaf gaman fyrir nemendur að taka þátt í svona mótum,  spila saman með nemendum úr öðrum tónlistarskólum og upplifa þá stórkostlegu reynslu að vera hluti af  stórri hljómsveit.
Miðvikudaginn 22. október skall á boðað verkfall Félags tónlistarkennara. Í tónlistarskólanum eru kennarar í tveimur stéttarfélögum og fóru alls 33 kennarar af 50 í verkfall, en 17 kennarar í Félagi íslenskra hljóðfæraleikara héldu áfram kennslu þar sem ekki kom til verkfalls hjá þeim.
Verkfallið stóð í 5 vikur og segja má að margfeldisáhrif verkfallsins hafi verið miklu meiri heldur en verkfallsvikurnar 5. Verkfallið hófst þegar nemendur voru komnir nokkuð vel af stað eftir sumarleyfi og því lauk 24. nóvember þegar tæpur mánuður var í jólaleyfi. Í kjölfar verkfallsins hættu nokkrir nemendur námi og langan tíma tók að koma öðrum nemendum aftur í gang. Verkfallið hafði mjög vond áhrif á allt skólastarf.  Til að mynda var ákveðið að hverfa frá þemavikunni sem alltaf er haldin í febrúar. Í þemaviku er öll hefðbundin kennsla felld niður og nemendur velja sér ýmis verkefni til að vinna að. Það var samdóma álit allra kennara skólans að nauðsynlegt væri að halda úti kennslu þessa viku þar sem mikið væri í húfi fyrir þá nemendur sem stefndu að prófum.

Uppskeruhátíð tónlistarskólanna Nótan var aðeins í mýflugumynd að þessu sinni  og var skólinn ekki þátttakandi í hátíðinni eins og hann hefur alltaf verið. Ég veit að ég mæli fyrir munn allra tónlistarkennara þegar ég segi „Vonandi verða ekki fleiri verkföll“

Það var ljóst að verkfallið gæti haft áhrif á prófáætlun margra nemenda, en próf frá Tónlistarskólanum gefa nemendum einingar stundi þeir nám í framhaldsskóla. Því er ég að greina frá þessu hér og um leið til að benda á umhyggju kennaranna fyrir nemendum sínum að ég hef orðið vitni  af því í vetur að mjög margir kennarar haf lagt á sig ómælda aukavinnu um helgar og á öðrum frídögum við að aðstoða nemendur sína fyrir tónleikar eða við að láta prófáætlanir sínar rætast. en fyrir þessa vinnu hafa kennarar ekki fengið greitt sérstaklega.

Í janúar kom Sinfóníuhljómsveit tónlistarskólanna saman til æfinga og tónleikahalds og var þetta 11. starfsár hljómsveitarinnar. Tónlistarskólinn hefur verið þátttakandi í hljómsveitinni og var reyndar einn af stofnendum hennar. Námskeið hljómsveitarinnar eru í janúar og þeim lýkur með tónleikum,  þar sem mjög oft er lögð áhersla á að flytja íslenska tónlist. Efnilegir hljóðfæraleikarar úr hópi nemenda hafa jafnan leikið einleik með sveitinni. Að þessu sinni var fluttur Konsertþáttur fyrir litla trommu og hljómsveit eftir Áskel Másson og var einleikari Helgi Þorleiksson slagverksnemandi úr Garðabæ. Guðmundur Óli Gunnarsson var hljómsveitarstóri og var þetta í fimmta sinn sem hann stjórnaði hljómsveitinni. Það samdóma álit okkar allra sem að hljómsveitinni  standa að Guðmundur hafi náð sérstaklega góðum tökum á nemendum hljómsveitarinnar. Hann er góður uppalandi, geri kröfur til sín og nemenda, er vinnusamur og hrósar nemendum þegar verl tekst til og þeir virða hann sem stjórnanda.  Með þessu samvinnuverkefni nokkurra tónlistarskóla gefst nemendum skólanna tækifæri til að taka þátt í flutningi stórra hljómsveitarverka
Í febrúar nánar tiltekið föstudaginn 13. daginn fyrir Dag tónlistarskólanna fengum við í heimsókn börn frá 15 leikskólum. Þetta er orðinn  árviss viðburður hjá okkur í skólanum. Að þessu sinni var þemað fuglar og léku nemendur Tónlistarskólans nokkur fuglalög fyrir leikskólabörnin sem sungu líka fuglalög við undirleika nemenda skólans.
Þessar heimsóknir eru afar skemmtilegar og örugglega hvatning fyrir leikskólabörnin til að koma til okkar í hljóðfæranám. Leikskólakennarar hafa líka  lýst yfir mikilli ánægju með þessar heimsóknir og hvatt til áframhaldandi samstarfs.
Laugardaginn 14. febrúar  var Dagur tónlistarskólanna haldinn hátíðlegur í skólanum og  þrátt fyrir 5 vikna verkfall kennaranna tókst dagurinn mjög vel. Dagskráin eins og gefur að skilja var ekki eins viðamikil og fjölbreytt og oft áður, en mikill fjöldi gesta kom á tónleika í skólanum allan daginn og hafði gaman af.

Í vetur tóku nokkrir flautunemendur ásamt kennurum sínum þátt í alþjóðlegri flautuhátíð dagana 27. – 29. mars. Á hátíðinni voru 16 þekktir flautuleikarar þar af 12 erlendir sem héldu fyrirlestra og voru með námskeið. Glæsilegt framtak hjá þeim sem að hátíðinni stóðu og mikill fengur fyrir flautunemendur.
Tveir gítarnemendur tóku þátt í námskeiði á Midnight Sun Guitar Festival  og píanódeild skólans stóð fyrir 4 námskeiðum – Master Class ar sem píanókennarar skólans voru leiðbeinendur.

Tónkvísl er rytmíska deildin okkar til húsa í leikfimihúsinu við Gamla Lækjarskólann og fer þar fram mjög öflugt starf allan veturinn.
Í vetur voru starfandi þar 7 samspil í mismunandi styrkleikaflokkum.
Hafin er kennsla í rytmískri hljómfræði og stefnt er að hefja kennslu næsta vetur í tónheyrn og jazz- og poppsögu fyrir nemendur í rytmisku námi.

Tekist hefur samstarf við rytmisku deildirnar í Tónlistarskóla  Garðabæjar  og Tónlistarskóla Kópavogs. Nemendur frá okkur hafa leikið með stórsveitinni í Garðabæ og haldnir voru tónleikar í Salnum í Kópavogi í samstarfi við nýstofnaða rytmiska deild þar á bæ.

Á uppskeruhátíðinn í Tónkvísl 7. febrúar var heiðursgestur hátíðarinnar enginn annar en Guðmundur Steingrímsson – Papa jazz  trommuleikari og gerði hann sér lítið fyrir og lék með nokkrum samspilum í Tónkvísl.  Vel fór á með nemendum og Guðmundi þótt rúmlega 60 ára aldursmunur væri á trommarnum og nemendum.

Í Tónkvísl fer fram öll starfsemi lúðrasveita skólans. Síðasliðið sumar hélt C sveitin til Brighton á Englandi og hélt tvenna tónleika í Pavillion Gardens og víðar. Þetta var mjög vel heppnuð ferð þar sem leikið var í sól og sumaryl og komu allir glaðir og sólbrúnir heim. Þessu stjórnaði að sjálfsögðu öllu með myndarbrag Helga Björg Arnardóttir.  Því miður hefur verið nokkur lægð í starfsemi sveitanna í vetur og hefur því verið ákveðið að blása til sóknar á næsta skólaári og hvetja alla blásara í skólanum til að mæta á æfingar og prófa að upplifa ánægjuna sem fylgir því að spila í lúðrasveit í  góðum félagsskap.

Við skólaslit er venjan að veita nemenda eða nemendum styrk úr Minningarsjóði Helgu Guðmundsdóttur

Það var árið 2001 sem Gunnlaugur Jón Ingason lagði fram höfðinglega gjöf til að stofna Minningarsjóð um konu sína Helgu Guðmundsdóttur sem var skólaritari Tónlistarskólans til margra ára.
Styrkur úr Minningarsjóði Helgu Guðmundsdóttur er ætlaður nemendum sem sýnt hafa dugnað og árangur í námi og hyggja á áframhaldandi tónlistarnám.

Frá stofnun sjóðsins hafa 14 nemendur skólans hlotið styrk úr sjóðnum og hann að hluta til átt þátt í að nemendur héldu til frekara tónlistarnáms eftir að hafa úrskrifast frá okkur.

Þar sem enginn nemandi er að ljúka Framhaldsprófi hjá okkur í ár þ.e. að útskrifast var tekin sú ákvörðun að ekki yrði veittur styrkur úr sjóðnum að þessu sinni. Þetta er ekki einsdæmi því slíkt hefur gerst áður.
50 luku fyrsta áfanga þ.e. G1 og Hr1, 39 öðrum áfanga G2 og Hr2, Grunnpróf tóku 20.  Í miðnámi luku 9 fyrta áfanga M1, 2 luku M2 og miðpróf tóku 9 nemendur.

 Árið 1976 sagði Gylfi Þ. Gíslason fyrrverandi menntamálaráðherra þessi orð:

„Almenningur á Íslandi gerir sér áreiðanlega ekki ljóst hvert starf er unnið í tónlistarskólunum og hversu snar þáttur þeir eru orðnir í heilbrigðu uppeldisstarfi og hversu sterk stoð þeir eru tónlist á Íslandi og þar með íslenskri menningu [...] Þótt skólastörf eigi að vinna í kyrrþey og ekki eigi að auglýsa árangur jafnvel ekki afrek í fjölmiðlum er hitt ástæðulaust að almenningi sé ekki gert ljóst ef vel er unnið þegar ástæða er til að halda að honum sé það ókunnugt. Í tónlistarskólunum er unnið svo merkilegt og gott starf að allir þeir sem kunna að meta menningargildi tónlistar eiga ekki aðeins að vita um það heldur einnig að þakka það.“

Gunnar Kvaran sellóleikari hefur þetta að segja um tónlistina:

 „Tónlist gefur, gleður, vekur, fegrar, skerpir og göfgar,
hún opnar hólf í hjarta sem enginn vissi um,
hún er heilandi andlegt afl sem kemur og fer hljóðlega.“

Það að læra tónlist frá unga aldri, bókstaflega þroskar barnið og gerir það að betri manneskju. Tónlistin þroskar barnið félagslega, tilfinningalega, í sambandi við einbeitingu og fegurðarskyn, - hún þroskar ótrúlega marga hæfileika með manninum og má efast um að nokkur önnur grein þroski jafn margvíslega hæfileika með börnum eins og tónlist.
Gunnar Gunnarsson.


Tónlistarskóli Hafnarfjarðar | tonhaf@hafnarfjordur.is | Strandgötu 51 | 220 Hafnarfirði | Pósthólf 23
Sími 555 2704 | Bréfsími 565 4909