Skólaslit - Skólaárið 2015 - 2016

6.6.2016                                                                                                                                                                                                                           Í vetur hafa um 600 nemendur stundað nám við skólann þar af um 90 6 - 8 ára nemendur í Forskólanum . Forskólanemendurnir hafa haft í mörgu að snúast, héldu jólatónleika og jólaball, tóku þátt í þemavikunni og enduðu með Vortónleikum í maí. Auk þessa hafa nemendur Forskólans heimsótt Sólvang og Drafnarhúsið og glatt mjög vistmenn þar með söng og hljóðfæraleik.

Fyrir fáeinum árum tókum við upp svokallaða Suzukikennslu þar sem nemendur geta byrjað að læra á fiðlu og selló 5 ára. Í vetur hafa 15 fiðlun- og 4 sellónemendur verið í Suzukinámi  ásamt foreldrum  sem sækja alla tíma með börnunum sínum. Næsta vetur hyggjumst við fara af stað með Suzuki píanókennslu.

Út í Tónkvísl er aðsetur Skólalúðrasveitanna þar sem Helga Björg ræður ríkjum.  Skólalúðrasveitarstarfið er nú allt að eflast hjá Helgu og hélt B sveitin frábæra jólatónleika í desember. Landsmót Skólalúðrasveita var haldið í Garðabæ helgina 29. apríl - 1. maí og voru krakkarnir skólanum okkar til sóma. Það er gaman að segja frá því hér að hópurinn vann prúðmennsku bikarinn sem veittur var þeirri hljómsveit sem var
(nú koma 3 orð í efstastigi) kurteisust, hjálpsömust og snyrtilegust. Foreldrafélagi hljómsveitarinnar eru hér færða góða þakkir fyrir öflugt starf með sveitinni á mótinu. Í janúar var stofnuð A sveit og nú eru rúmlega 30 krakkar að taka þátt í lúðrasveitarstarfinu í Tónkvísl og fer fjölgandi.

Þegar líður að jólum tekur alltaf við mjög skemmtilegur tími í skólanum.
Sú skemmtilega nýbreyttni var nú í tengslum við Jólaþorpið að boðið var upp á tónlist í Einarsbúð (Veiðibúðinni). Þrjá laugardaga 5., 12. og 19. desember komu fram rúmlega 10 tónlistarhópar úr skólanum  og léku fyrir gesti sem gátu fengið sér heitt súkkulaði og kökur í bakaríinu um leið og þeir hlustuðu á fallega jólatónlist.

Í janúar kom Sinfóníuhljómsveit tónlistarskólanna saman til æfinga og tónleikahalds og var þetta 12. starfsár hljómsveitarinnar. Tónlistarskólinn hefur verið þátttakandi í hljómsveitinni frá upphafi og var reyndar einn af stofnendum hennar. Námskeið hljómsveitarinnar eru í janúar og þeim lýkur með tónleikum,  þar sem mjög oft er lögð áhersla á að flytja íslenska tónlist. Efnilegir hljóðfæraleikarar úr hópi nemenda hafa jafnan leikið einleik með sveitinni.  Að þessu sinni voru verkin á efnisskránni: Fornir dansar eftir Jón Ásgeirsson, Píanókonsert eftir Sjostakovitsj þar sem þrír píanónemendur skiptu með sér einleikshlutverkinu og síðan Sinfónía nr. 4 í d-moll eftir Robert Schumann. Guðmundur Óli Gunnarsson var hljómsveitarstóri og var þetta í sjötta  sinn sem hann stjórnaði hljómsveitinni. Með þessu samvinnuverkefni nokkurra tónlistarskóla gefst nemendum skólanna tækifæri til að taka þátt í flutningi stórra hljómsveitarverka.

Strax á nýju ári var farið að huga að þemavikunni. Þemavikan var haldin  8. - 12. febrúar og Dagur tónlistarskólanna laugardaginn 13. febrúar.
Að þessu sinni var þemað þjóðlöndin í Hafnarfirði. Þegar við fórum að skoða frá hversu mörgum þjóðlöndum íbúar í Hafnarfirði eru, kom í ljós að þeir eru frá ekki færri en 50 löndum. Hugmyndin var að reyna að fá nemendur skólans til spila tónlist frá einhverjum af þessum löndum. Þemavikan gekk prýðis vel og afrakstur hennar var síðan nýttur á Degi tónlistarskólanna þar sem leikin voru lög frá ekki færri en 20 þjóðlöndum.
Það er komin skemmtileg hefð á þemavikuna þega nemendur úr Leikskólunum koma í heimsókn í Tónlistarskólann til að hlusta á fjölbreytta tónlistardagskrá og eru um leið virkir þátttakendur. Að þessu sinni komu nemendur frá flestum leikskólunum í heimsókn.
Þessar heimsóknir hafa mælst mjög vel fyrir hjá leikskólakennurum og heimsóknin kveikir örugglega áhuga í brjósi margra þessara litlu gesta að hefja tónlistarnám hjá okkur.
Á Degi tónlistarskólanna er síðan alsherjar tónlistarveisla í skólanum og í Tónkvísl þar sem fram koma hljómsveitir, margvísleg samspil og einleikarar.
Dagurinn byrjar reyndar alltaf á ákaflega skemmtilegri hljóðfærakynningu í Hásölum fyrir Forskólanemendur. Hljóðfærakynningin heldur síðan áfram út í stofunum þar sem nemendur og foreldrar fræðast frekar um hljóðfærin og námið  hjá kennurum. Þar fá líka nemendur að prófa að halda á hljóðfærinu e.t.v. að blása svolítið eða strjúka strengi.
Í Hásölum / á Torginu og út í Tónkvísl eru síðan tónleikar allan daginn með afar fjölbreyttu efni og tónleikagestir sem koma í skólann þennan dag skipta hundruðum.

Með því að stofna rythmiska skólann út í Tónkvísl gafst okkur tækifæri til að auka fjölbreytnina í hljóðfærakennslunni og gefa fleiri nemendum tækifæri til náms. Þar stunda nú 62 nemendur nám. Gott samstarf hefur verið við Tónlistarskóla Garðabæjar, TSDK, Listarskóla Mosfellsbæjar og Tónsali. þrisvar í vetur komu nemendur frá þessum skólum saman og léku á hljóðfærin sín í svokallaðri Jamsession - jazzstandarda af ýmsum toga. Stefnt er á að vera með vinnubúðir fyrir þessar hljómsveitir í Reykjanesbæ næsta vetur og vera þar með tónleika um miðnætti. Í Tónkvísl eru haldnar uppskeruhátíðir bæði fyrir og eftir áramót þar sem fram koma margir efnilegir hljóðfæraleikarar, en í Tónkvísl eru nú starfandi 8 samspil
Það er gaman að segja frá því hér að hljómsveitin Wayward var kosin hljómsveit fólksins í símakosningu á Músíktilraunum 2016 en hljómsveitarmeðlimir eru allir nemendur í Tónkvísl.
Stefnt er að áframhaldandi uppbyggingu á starfinu þar. Bætt verður við nýjum fögum eins og snarstefjun, rafgítarsamspili, Rokk og jazzsögu og hljómalestri fyrir hljóðfæraleikara. Þessi fög geta nýst öllum lengra komnum nemendum Tónlistarskólans þó þeir séu í klassisku námi.

Nótan uppskeruhátíð tónlistarskólanna hefur sannarlega náð þeim tilgangi sem lagt var upp með í byrjun að vekja athygli á hinu mikla starfi í tónlistarskólunum um allt land. Skólinn okkar hefur alltaf verið þátttakandi í Nótunni og nemendum skólans ávalt gengið vel og oftar en einu sinni unnið til verðlauna.
Lokahátíð Nótunnar sem fram fer í Eldborgarsal Hörpu er glæsilegur vitnisburður um körftugt og metnaðarfullt starf tónlistarskólanna í landinu.

Dagana 26. maí til 2. júní voru í heimsókn hjá okkur hljómsveitin Amandus frá framhaldsskólanum í Cuxhaven. Í hljómsveitinni eru 28 hljóðfæraleikarar á aldrinum 13 – 18 ára, sem leika á fiðlur, selló, trompetta, básúnur, saxófóna og gítar. Nemendurnir ásamt þremur fararstjórum gistu í Tónlistarskólanum í þessari vikudvöl á Íslandi. Farið var í tvær ferðir með hópinn „Gullna hringinn og um Reykjanes með viðkomu í Bláa lóninu. Miðvikudaginn 1. júní hélt hljómsveitin tónleika í Hásölum . Á tónleikunum lék með þeim í nokkrum lögum  Sinfóníuhljómsveit Tónlistarskólans sem við heyrðum í hér áðan undir stjórn Ármanns Helgasonar.
Að sjálfsögðu var boðið upp á íslenskar pizzur að tónleikunum loknum.
Hver veit nema hljómsveitin okkar fái  heimboð frá þýskalandi eftir þessa skemmtilegu heimsókn krakkanna frá Cuxhaven.

Í formála bókarinnar Saga tónlistarinnar eftir Árni Heimir Ingólfsson segir:
Tónlist er órjúfanlegur hluti af lífi hverrar manneskju frá vöggu til grafar.
Í henni speglast tilvera okkar og tilfinningar, hún lyftir huganum í hæðir á gleðistundum og græðir sálarmein þegar skuggar sækja að. Þegar best lætur getur tónlistin dýpkað skilning manns á lífinu sjálfu.
Tónlist verður ekki til í tómarúmi. Hún speglar tjáningarþörf, listræna sannfæringu og smekk þess sem skapar hana.

 Ég vil þakka nemendum, foreldrum, kennurum og riturum ákaflega ánægjulegt samstarf í vetur og óska ykkur öllum gleðilegs sumars um leið og ég segi Tónlistarskóla Hafnarfjarðar slitið.

Gunnar Gunnarsson


Tónlistarskóli Hafnarfjarðar | tonhaf@hafnarfjordur.is | Strandgötu 51 | 220 Hafnarfirði | Pósthólf 23
Sími 555 2704 | Bréfsími 565 4909