Skólaslit. Um skólaárið 2016 - 2017

14.6.2017

Rúmlega 600 nemendur leggja stund á tónlistarnám

Tónlistarskóla Hafnarfjarðar var slitið í 66. sinn síðastliðinn mánudag.

Það er alltaf ánægjulegt þegar nálgast skólalok á vorin. Nemendur hafa lagt sig fram um að stunda námið af kostgæfni og læra fjölmörg tónverk eftir ýmsa höfunda sem síðan eru flutt á skólatónleikum á jólum eða vori eða á nemendatónleikum kennara. Eins og fram kom hér að framan hafa um 600 nemendur lagt stund á tónlistarnám í vetur. Þar af rétt um 100 í Forskóloa I og II. Um 60 nemendur eru í rytmísku deildinni í Tónkvísl og í Suzukideild skólans voru í vetur 24 nemendur á fjögur mismunandi hljóðfæri flestir á fiðlu.

Merkur atburður átti sér stað í nóvember þegar Hákon Leifsson lauk framhaldsprófi í orgelleik frá skólanum. Er hann fyrstur nemenda á Íslandi til að ljúka því prófi frá Prófanefnd. Kennari hans var Guðmundur Sigurðsson organisti Hafnarfjarðarkirkju og var mjög ánægjulegt samstarf milli hans og skólans.

Nemendur í rytmískum deildum tónlistarskólanna á höfuðborgarsvæðinu hittust í Garði á Hljómanótt í nóvember og léku þar frumsamin og þekkt lög saman frá miðnætti og fram eftir nóttu. Mjög vel tókst til og hefur verið ákveðið að endurtaka þetta á Selfossi næsta haust.

Nú eins og mörg undanfarin ár hafa nokkrir nemendur tekið þátt í Sinfóníuhljómsveit tónlistarskólanna, en hún hittist í janúarmánuði ár hvert ásamt stjórnanda og þar fer fram raddþjálfun þar sem æfð eru þau verk sem flutt eru í lok mánaðar. Fjórir tónlistarskólar á höfuðborgarsvæðinu standa að þessu verkefni: Tónlistarskóli Hafnarfjarðar, Tónlistarskóli Garðabæjar, Tónlistarskóli Kópavogs og Tónskóli Sigursveins D. Kristinssonar. Að auki er öllum tónlistarskólum á landinu boðið að senda nemendur til að taka þátt í þessu verkefni. Guðmundur Óli Gunnarsson hefur stjórnað sveitinni síðastliðin 7 ár og hefur hann náð vel til nemenda, en hann gerir kröfur til þeirra og er vinnusamur og hrósar þeim að auki.

Í febrúar er haldin þemavika og er skólastarfið þá brotið upp og margs konar samspil voru í gangi. Einnig fáum við heimsókn frá skólahópum leikskólanna í bænum og eru það forskólakrakkarnir á eldra ári sem taka á móti þeim ásamt fjölmörgum öðrum hljóðfæranemendum. Að þessu sinni komu krakkar frá 14 leikskólum allt að 320 bör. Er þetta mjög ánægjulegt og gaman að fá leikskólabörnin í heimsókn en þau eru mjög áhugasöm um hin ýmsu hljóðfæri sem þau sjá og heyra.

Á Degi tónlistarskólanna fer svo fram hin árlega hljóðfærakynning fyrir eldra ár forskólans þar sem kennarar skólans kynna þau hljóðfæri sem kennt er á  við skólann og nemendur fá í kjölfarið að prófa að leika á þau. Eftir hádegi voru svo fjölmargir tónleikar þar sem hin ýmsu samspil sem æfðu í þemavikunni komu fram.

Mikil gróska er í rytmíska skólanum í Tónkvísl og eru þar 60 nemendur eins og áður hefur komið fram og 9 kennarar. Í vetur var stofnuð Stórsveit TH og lék hún í Hörpu á alþjóðlega jazzdeginum 30. apríl. Þar er einnig boðið upp á rytmískt söngnám fyrir unga nemendur, stráka og stelpur. Tvisvar á ári er haldin uppskeruhátíð þar sem samspilin koma fram, bæði þau sem eru nýbyrjuð og hin sem hafa spilað lengur saman.

Nótan er uppskeruhátíð tónlistarskólanna. Tónlistarskólinn hefur tekið þátt í henni frá upphafi og nemendum gengið vel og einu sinni unnið til verðlauna. Í ár voru tveir nemendur fulltrúar skólans á lokahátíðinni sem haldin var í Eldborgarsal Hörpu, þeir Hafþór Óskar Kristjánsson gítarleikari og Hákon Aðalsteinsson píanóleikari og söngvari. Var það mikill heiður fyrir þá og ekki síður fyrir skólann. Báðir stóðu sig mjög vel og voru skólanum til sóma.

Í byrjun vetrar var ákveðið að fara í mjög stórt verkefni sem flutt yrði á Björtum dögum á vordögum í Íþróttahúsinu við Strandgötu. Var leitað til bræðranna Jóns Jónssonar og Friðriks Dórs um starfstarf og voru þeir til í það. Ásamt þeim komu að verkinu stór hljómsveit og kór. 11 lög voru val og útsettu þrír af kennurum skólans þau. Þátttakendur í verkefni voru Sinfóníuhljómsveit TH, Lúðrasveit TH, Forskóli 2, Rytmaband úr Tónkvísl, Unglingakór Lækjarskóla og danshópur úr Lækjarskóla auk liðsauka úr Garðabæ og Kópavogi. Verkefnið hlaut nafnið Bræðralag. Tvær sýningar voru og nær húsfyllir á báðum og gekk þetta það vel að ákveðið hefur verið að framhald verði á svona samstarfi af einhverju tagi.

Í ár hafa nær allir nemendur tekið einhvers konar próf, Vorpróf, innanhúss áfangapróf eða Prófanefndarpróf þar sem utanaðkomandi prófdómari kemur og hlustar. Allir þeir nemendur sem ljúka áfangaprófum eru kallaðir upp á skólaslitum og í ár luku 141 prófi í Grunnnámi og þar af luku 23 Grunnprófi, 28 luku áfangaprófi í Miðnámi og þar af tóku 11 Miðpróf og 5 luku áfangaprófi í framhaldsnámi og af þeim lauk einn Framhaldsprófi í orgelleik eins og að framan er getið.

Alltaf er einhver breyting á kennarahópnum en þó var ánægjulegt í hófi fyrir þá starfsmenn bæjarins sem unnið hafa samfellt í 25 ár eða lengur að í þeim hópi voru 7 kennarar við tónlistarskólann. Sýnir það að góður andi er í skólanum og kennarar halda tryggð við hann. Helgi Bragason hefur starfað samfellt í 34 ár við skólann og mun láta af störfum 1. september sem aðstoðarskólastjóri og hefur staða hans verið auglýst til umsóknar. Er Helga þakkað fyrir hans störf bæði sem kennari og stjórnandi.

Gunnar Gunnarsson


Tónlistarskóli Hafnarfjarðar | tonhaf@hafnarfjordur.is | Strandgötu 51 | 220 Hafnarfirði | Pósthólf 23
Sími 555 2704 | Bréfsími 565 4909