Starfið í vetur 2018 - 2019

29.5.2019

Hér er smá annáll um starfið í vetur. Næsta haust verður heimasíðan uppfærð almennilega og upplýsingum um starfið sett reglulega á vefinn.

Breytingar á forskóla:

Skólastjórnendur fóru í heimsókn í Tónlistarskóla Garðabæjar ásamt deildastjóra forskóla og deildastjóra blásaradeildar og fengu kynningu á nýju forskólakerfi svokölluðum blásaraforskóla sem þau hafa þróað út frá finnskri fyrirmynd. Forskólanemendurnir læra á blásturshljóðfæri í þriggja nemenda hópum og er þetta tveggja ára tilraunaverkefni sem líkur í vor. Ástæðan fyrir þessari aðferð var að blásaradeildir hafa verið á undanhaldi síðustu ár og erfitt að fá nemendur á þessi hljóðfæri. Áður lærðu nemendur á blokkflautu og fannst skólastjórnendum það ekki skila þeim árangri sem ætlast var til. Mikil ánægja er með þessa tilraun í Garðabæ. Nemendum sem velja blásturshljóðfæri eftir forskóla hefur fjölgað, sem haft hefur jákvæð áhrif á lúðrasveitir skólans. Það ber að athuga að slíkt forhljóðfæranám einskorðast ekki við blásturshljóðfæri heldur er einnig hægt að útfæra hugmyndina yfir á hvaða hljóðfæri sem er.

Næsta skólaár verður forskólanum breytt hja okkur og verður forskóli tvö nú blásaraforskóli.

Framkvæmd:

Allir nemendur í forskóla tvö færu á blásturshljóðfæri. Ekki verður gefinn kostur á að velja á hvaða hljóðfæri nemendur lærðu. Kennt verður í þriggja nemenda hópum tvisvar í viku. Hver nemandi fær 20 mínútna einkatíma einu sinni í viku og samkennslu 30 mínútur einu sinni í viku.

Söngnámskeið:

Í janúar var auglýst söngnámskeið fyrir almenning þar sem boðið var upp á fjögurra vikna söngnámskeið. 14 einstaklingar sóttu tíma og var fyrirkomulagið að hver þáttakandi fékk fjóra einkatíma og tvo hóptíma (samsöngstímar)

Samstarf við grunn og leikskóla.

Ekkert formlegt samstarf er við grunn og leikskóla bæjarins. Öllum skólahópum í leikskólum bæjarins er alltaf boðið í heimsókn til okkar á hljóðfærakynningu og tónleika í febrúar. Hugmynd er að gera slíkt hið sama við alla nemendur 2. bekkjar grunnskólanna. Með þessu langar okkur kynna skólann fyrir nemendum og ef vel tekst til þá gæti þetta orðið árleg heimsókn.

Rythmíska deildin (Tónkvísl) hefur í nokkur ár verið í samstarfi við aðra skóla sem hafa rytmíska deildir og eru haldnir sameiginlegir tónfundir árlega. Í ár var tvisvar sinnum haldnir sameiginlegir tónfundir.

TH hefur í mörg ár verið aðili að Sinfóníuhljómsveit tónlistarskólanna ásamt Tónlistarskóla Garðabæjar, Tónlistarskóla Kópavogs og Tónskóla Sigursveins. Þetta er mjög mikilvægt samstarf þessara skóla og sérstaklega að geta boðið nemendum upp á þess konar hljómsveit. Sinfóníuhljómsveitin æfði í janúar og endaði með metnaðarfullum tónleikum í Langholtskirkju 23. Janúar.

Ný tónlistardeild í Skarðshlíðarskóla:

Með tilkomu tónlistardeildar í Skarðshlíðarskóla haustið 2020 opnast möguleiki á samstarfi við grunnskóla og leikskóla. Þetta er mjög spennandi verkefni sem hefur marga kosti fyrir tónlistarnemendur m.a.

Nemendur sækja tónlistarnám á skólatíma.

Auðveldara verður fyrir grunn og leikskólann að nýta sér tónlistarskólann í leik og starfi.

Starf tónmenntakennarans verður skemmtilegra og fjölbreyttara.

Auðveldara verður að halda uppi hljómsveitarstarfi.

Nauðsynlegt er að stjórnendur allra skólastiganna verði í góðu sambandi til að yfirstíga alla hnúta sem kunna að myndast.

Tónleikastaðir:

Þar sem Hásalir er ekki að nýtast okkur nógu vel sem tónleikasalur vegna annara viðburða í salnum var farið í að skoða aðra möguleika.

Bæjarbíó

Lúðrasveitartónleikar 2. des voru fluttir í Bæjarbíó sem er frábært hús fyrir tónleika af þessu tagi. Í vor voru tónleikar rytmísku deildarinnar og tónleikar lúðrasveitanna í Bæjarbíói. Áhugi er á að fleiri tónleikar verði næsta vetur í Bæjarbíói og þá sérstaklega fyrir rafmagnaða tónlist. Aðstaðan er eins og best verður á kosið og öll tæki og trommusett er til staðar.

Hafnarborg.

Tvennir jólatónleikar voru í Hafnarborg í desember og var það gert til að prófa hvernig Hafnarborg væri sem tónleikahús. Í janúar var samið um að halda alla tónfundi sem evoru einu sinni í mánuði í Hafnarborg. Mjög góður flygill er á staðnum og góður hljómburður og frábært viðmót starfsmanna. Hugmynd hefur komið upp að útvíkka samstarfið og hafa myndlistasýningu í húsnæði tónlistarskólans á Strandgötu næsta vetur.

Ýmsir viðburðir á vegum skólans.

Sinfóníuhljómsveit skólans tók þátt í Erasmusverkefni ásamt nemendum frá vinabæ Hafnarfjarðar Cuxhaven. Sinfóníuhljómsveitin hafði ári áður farið til Cuxhaven en í haust var röðin komin að Hafnarfirði að bjóða heim. Unnið var með þjóðlög frá báðum löndum og afraksturinn síðan sýndur á tónleikum.

Tónajól

Í desember voru haldnir stórir tónleikar í íþróttahúsinu við Strandgötu (Tónajól). Þetta var í annað sinn sem tónlistarskólinn blés til stórtónleika en í fyrsta skipti var það á Björtum dögum 2017 þegar lög þeirra bræðra Friðriks Dórs og Jóns Jónssonar fengu að hljóma. Að þessu sinni fékk skólinn til liðs við sig söngkonurnar Guðrúnu Árnýju og Margréti Eir sem báðar eru búsettar í Hafnarfirði og þekktar í íslensku tónlistarlífi. Á dagskránni voru ýmis jólalög, sum í nýjum útsetningum kennara við skólann. Fram koma sinfóníuhljómsveit, lúðrasveit, hrynsveit, gítarsveit, klarinettusveit og flautusveit. Einnig nemendur úr söngdeild og píanódeild og eldri hópur úr forskólanum. Á annað hundrað nemenda komu fram að þessu sinni.

Þemavika og Dagur tónlistarskólanna

Þemavikan var fyrsta vikan í febrúar og var þemað að þessu sinni „tónleikaútrás“ þ.e. haldnir voru tónleikar víðs vegar um bæinn bæði á stofnunum sem, og í fyrirtækjum og kaffihúsum.

Á Degi tónlistarskólanna er föst hefð að byrja kl. 10 með hljóðfærakynningu í Hásölum fyrir nemendur í Forskóla II. Að lokinni hljóðfærakynningu gefst nemendum og foreldrum kostur á að fara í stofur og hitta þar fyrir kennara sem sýna hljóðfærin betur og segja frá helstu atriðum í náminu á viðkomandi hljóðfæri. Frá kl. 13.00 og fram eftir degi verða fjölmargir tónleikar á Torginu í skólanum og í Hásölum þar sem m.a. afrakstur þemavikunnar verður í boði.

Í þemavikunni koma elstu nemendur leikskólanna í heimsókn og hlusta á nemendur skólans leika á hljóðfærin sín. Það er alltaf mikil tilhlökkun að fá hópinn í heimsókn, en gera má ráð fyrir að ekki færri en 320 börn úr 14 leikskólum komi í Tónlistarskólann þennan dag.

Nótan

NÓTAN - uppskeruhátíð tónlistarskóla var fyrst haldin skólaárið 2009-2010 og er árlegur viðburður í kerfi tónlistarskóla á Íslandi.

Uppskeruhátíðin er ný vídd í starfsemi tónlistarskóla. Hátíðin er í senn faglega hvetjandi og skemmtilegt innlegg í skólastarfið fyrir alla aðstandendur skólanna jafnt innan veggja þeirra sem utan.

Uppskeruhátíðin er þrískipt og skipulögð þannig að allir geti tekið þátt. Þátttakendur eru:

· frá öllu landinu,

· á öllum aldri og

· á öllum stigum tónlistarnáms.

Tónlistarskóli Hafnarfjarðar hefur alltaf tekið þátt í Nótunni. Fyrirkomulagið er að haldin er valkeppni innanskólans og valin atriði til að taka þátt í svæðistónleikum sem haldin var í Salnum í Kópavogi 16. mars, þar voru síðan valin 7 atriði sem halda síðan áfram á lokahátíðinni sem fram fór í Hofi á Akureyri laugardaginn 6. apríl.

Tvö atriði frá okkur komust áfram í Kópavogi það var gítardúett skipaður þeim Valgerði Báru Baldvinsdóttur og Sóleyu Örnu Arnarsdóttur og Sinfóníuhljómsveit skólans stjórnandi Ármann Helgason. Þessi tvö atriði fóru norður og tóku þar þátt í lokahátíðinni.

Noregur/Bærum

Tónlistarskóli Hafnarfjarðar fékk boð um senda sex nemendur við tónlistarskólann á „Twin City Music Expo“ í samvinnu með tónlistarfólki í Bærum vinabæ Hafnarfjarðar í Noregi dagana 20.-25. maí 2019.

Skilyrði var að nemendurnir séu á aldrinum 18-25 ára og stundi nám við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Samvinnan fólst í tónsköpun, útsetningum og upptökum á tónsköpun þátttakenda. Námskeiðið fór fram í „Tanken“ sem er gömul sútunarverksmiðja miðsvæðis í Bærum sem breytt hefur verið í stúdíó og tónleikasal. Þar veljast saman ólíkir hópar sem skapa í sameiningu tónlist

Þetta var frábært tækifæri fyrir nemendur til að auðga þekkingu sína í tónlist og tónlistarsköpun.

Þeir nemendur sem fóru voru:

Baráttan um tíma nemenda:

Það er óhætt að segja að Hafnarfjörður er mikill íþróttabær og þá sérstaklega mikill boltabær. Þetta hefur í för með sér að tónlistarskólinn og íþróttafélögin eru að keppa um tíma nemenda. Mjög erfitt getur verið að koma á t.d. samspilstímum vegna tímaleysis. Nemendur veigra sér oft við að sækja frí á æfingum íþróttafélaga vegna t.d. uppákoma í Tónlistarskólanum. Næsta vetur höfum við hug á því að koma á spjalli við íþróttahreyfinguna og athuga hvort hægt sé að finna einhverja leið sem allir aðilar eru sáttir við.


Tónlistarskóli Hafnarfjarðar | tonhaf@hafnarfjordur.is | Strandgötu 51 | 220 Hafnarfirði | Pósthólf 23
Sími 555 2704 | Bréfsími 565 4909