Lög, reglugerðir og leyfisveitingar

1. gr.

Skólinn heitir Tónlistarskóli Hafnarfjarðar. Skólinn er eign Hafnarfjarðarkaupstaðar og fer bæjarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar með yfirstjórn hans.

2. gr.

Skólinn starfar eftir ákvæðum gildandi laga og reglugerða.

3. gr.

Markmið skólans er að veita almenna tónlistarfræðslu og vinna að eflingu tónlistarlífs í Hafnarfirði.

Þessum markmiðum hyggst skólinn ná með því:

  • að annast kennslu í hljóðfæraleik og söng ásamt kennslu í öðrum tónlistargreinum sem gert er ráð fyrir í námsskrám tónlistarskólanna,
  • að búa nemendum fjölbreytt skilyrði til að þroska tónlistarhæfileika sína og sköpunar-gáfu,
  • að leggja áherslu á félagslegt gildi tónlistariðkunar með þáttöku nemenda í samleik, kór- og hljómsveitarstarfi,
  • að búa nemendur undir áframhaldandi nám í tónlist,
  • að efla samstarf við aðrar menntastofnanir í Hafnarfirði.

4. gr.

Fræðsluráð Hafnarfjarðar, hverju sinni, fer með yfirstjórn skólans.

5. gr.

Formaður fræðsluráðs boðar til funda með dagskrá svo oft sem þurfa þykir og er skylt að boða til fundar ef tveir nefndarmenn, skólastjóri eða kennarafundur æskir þess.

Skólastjóri eða staðgengill hans á rétt til setu á fræðsluráðsfundum þegar fjallað er um málefni tónlistarskólans og hefur þar málfrelsi og tillögurétt.

6. gr.

Með ráðningar skólastjóra og annarra starfsmanna tónlistarskólans fer samkvæmt 91. gr. samþykkta um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 637/2002 með síðari breytingu.

7. gr.

Skólastjóri fer með daglega stjórnun í samráði við fræðsluráð og kennara skólans. Hann ber ábyrgð á að skólastarfið sé í samræmi við reglugerð þessa. Hann skal framfylgja samþykktum fræðsluráðs. Skólastjóri ráðstafar húsnæði og hefur yfirumsjón með eigum skólans.

Skólastjóri kemur fram fyrir hönd skólans gagnvart starfsmönnum, nemendum og foreldrum þeirra svo og aðilum utan skólans.

Skólastjóri skal skila vinnuskýrslum starfsmanna til launadeildar og árita reikninga til greiðslu.

Skólastjóri ber ábyrgð á innheimtu skólagjalda.

8. gr.

Aðstoðarskólastjóri er skólastjóra til aðstoðar og starfar að stjórn skólans í umboði hans. Hann skal vera staðgengill skólastjóra í fjarveru hans.

9. gr.

Kennarafundur er skólastjóra til ráðuneytis um starf skólans. Almennan kennarafund skal halda í upphafi skólaárs þar sem drög að starfsemi eru kynnt.

Skólastjóri eða staðgengill hans boðar til kennarafunda með dagskrá og stjórnar þeim eða skipar fundarstjóra. Halda skal gjörðabók kennarafunda. Skylt er kennurum skólans að sækja kennarafundi þá mánuði sem skóli starfar. Skylt er að halda kennarafund ef minnst 1/4 hluti fastra kennara æskir þess.

10. gr.

Heimilt er að stofna til foreldraráðs og skulu starfsreglur þess hljóta samþykki fræðsluráðs að fenginni umsögn kennarafundar. Með sama hætti er heimilt að stofna til nemendaráðs. Heimilt er kennarafundi að kveðja til fulltrúa foreldra og/eða nemenda við umfjöllun um innri málefni skólans.

11. gr.

Rekstur skólans skal kosta með fjárveitingum á fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar, skólagjöldum nemenda og úr ríkissjóði eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum. Bæjarsjóður Hafnarfjarðarkaupstaðar annast greiðslu launa og rekstrarreikninga svo og bókhald Tónlistarskóla Hafnarfjarðar.

12. gr.

Sviðsstjóri fræðslusviðs/fræðslustjóri Hafnarfjarðarkaupstaðar og skólastjóri semja drög að fjárhagsáætlun næsta árs og leggja fyrir fræðsluráð. Fræðsluráð Hafnarfjarðar leggur tillögur að fjárhagsáætlun fyrir bæjarstjórn til endanlegrar afgreiðslu.

13. gr.

Áætlun um kennsluskipan og námsframboð skal ávallt liggja fyrir. Heimilt er skólastjóra að vísa nemanda frá námi ef hann hefur ekki sinnt því um lengri tíma eða hefur gerst brotlegur við reglur skólans og ekki látið segjast við áminningu. Rísi ágreiningur um skólavist nemanda skal fræðsluráð úrskurða í málinu.

14. gr.

Árlegur starfstími skólans er 36 vikur og skal kennsla vera samkvæmt gildandi kjarasamningi hverju sinni. Leitast skal við að samræma starfstíma tónlistar- og grunnskóla eins og kostur er.

15. gr.

Reglugerð þessi var samþykkt í Fræðsluráði Hafnarfjarðar hinn 18. júní 2008.

 


Tónlistarskóli Hafnarfjarðar | tonhaf@hafnarfjordur.is | Strandgötu 51 | 220 Hafnarfirði | Pósthólf 23
Sími 555 2704 | Bréfsími 565 4909