Saga skólans

Tónlistarskóli Hafnarfjarðar. Stutt söguágrip

Árið 1946 var Tónlistarfélag Hafnarfjarðar stofnað til að stuðla að tónleikahaldi í Hafnarfirði og veturinn 1949–50 stóð félagið fyrir kennslu í píanóleik. Í september 1950 ákvað stjórn félagsins að stofna Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Skólinn hóf starfsemi sína þá um haustið með 16 nemendum, sem flestir stunduðu píanónám.

Páll Kr. Pálsson, organisti, var ráðinn skólastjóri, og gegndi hann þeirri stöðu til vors 1971. Tónlistarskóli Hafnarfjarðar var einn fyrsti tónlistarskólinn utan Reykjavíkur og kom í hlut Páls Kr. Pálssonar að móta starfsemi hans og setja honum reglugerð.

Fyrstu ár skólans var áhugi bæjarbúa á tónlistarnámi lítill. Fá hljóðfæri voru til á heimilum og erfiðlega gekk að laða bæjarbúa að skólanum. Aðsókn jókst með árunum, farið var að kenna á fleiri hljóðfæri og stofnaður var forskóli fyrir yngri börn. Árið 1958 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að veita fé til kaupa á blásturshljóðfærum og til að greiða laun kennara. Var kennsla á blásturshljóðfærin ókeypis fyrir alla drengi í bænum á skólaskyldualdri og var Tónlistarskóla Hafnarfjarðar falið að annast hana. Síðan þá hefur lúðrasveit starfað óslitið við skólann.

Tónlistarskóli Hafnarfjarðar naut frá upphafi styrks úr bæjarsjóði og ríkissjóði. Hann hafði ókeypis afnot af kennslustofum Flensborgarskóla, en kennsla gat reyndar ekki hafist þar fyrr en eftir kl.17.30. Húsnæðið var óhentugt til tónlistarkennslu og stóð þessi slæma aðstaða í vegi fyrir eðlilegum vexti Tónlistarskólans. Hann var til húsa í Flensborgarskóla til ársins 1968. Auk þess fór nokkur kennsla fram á Austurgötu 11 og  Suðurgötu 35 á árunum 1962 – 64. Eftir að skólinn missti aðstöðuna í Flensborg fékk hann inni að hluta til á Vesturgötu 4 ásamt húsnæðinu á Suðurgötu. Tónlistarskólinn starfaði í Alþýðuhúsinu Strandgötu 32 frá 1973, uns flutt var í nýja skólann 1997. Á þessum tíma var einnig kennt nokkur ár á Suðurgötu 11.

Páll Kr. Pálsson lét af starfi skólastjóra 1971 og tók Egill Friðleifsson við um haustið. Árið 1976 var Páll Gröndal ráðinn skólastjóri og gegndi hann því starfi til ársins 1980. Þorvaldur Steingrímsson var skólastjóri frá 1980 – 1988 er Örn Arason tók við. Í árslok 1989 var Gunnar Gunnarsson ráðinn skólastjóri við Tónlistarskólann og ári síðar var Helgi Bragason ráðinn yfirkennari. 2018 tók Eiríkur G. Stephensen núverandi skólastjóri við og ári áður var Stefán Ómar Jakobsson ráðinn aðtoðarskólastjóri. 

Árið 1992 í september var tekin fyrsta skóflustunga að nýjum Tónlistarskóla sem rísa skyldi við Strandgötu nærri Hafnarfjarðarkirkju. Efnt var til samkeppni meðal arkitekta um hönnun skólans og varð tillaga arkitektanna Sigríðar Magnúsdóttur og Hans Olav Andersen fyrir valinu.  Í ágúst 1997 var nýtt húsnæði Tónlistarskólans tekið í notkun með vígsluathöfn, þegar þáverandi bæjarstjóri Ingvar Viktorsson afhenti Gunnari Gunnarssyni, skólastjóra, lyklana að nýja skólanum. Kennsla hófst fljótlega að lokinni vígslu, eða í byrjun september.

Í dag starfar Tónlistarskólinn samkvæmt námskrá sem gefin er út af menntamálaráðuneytinu. Náminu er skipt í grunnnám, miðnám og framhaldsnám. Kennt er á píanó, hljómborð, orgel, harmóniku, gítar, bassa og slagverk og eins er kennt á öll helstu strengja-, tréblásturs- og málmblásturshljóðfæri. Í skólanum er starfandi söngdeild. Samhliða hljóðfæranámi sækja nemendur tíma í tónfræði, tónheyrn, hljómfræði og tónlistarsögu. Mikil áhersla er lögð á samspil og starfar í skólanum sinfóníuhljómsveit, strengjasveitir, tvær lúðrasveitir, stórsveit og fjölmargir aðrir minni samspilshópar. Mjög öflugt tónleikahald fer fram í skólanum, sérstaklega fyrir jólin og á vorin, en að jafnaði eru haldnir tveir tónfundir í mánuði.

Í Tónlistarskólanum er forskóladeild fyrir börn á aldrinum 6 – 9 ára. Markmið hennar er að búa nemendur undir hljóðfæranám með markvissri þjálfun í hryn-, nótnalestri og almennri tónfræði. Í kennslustundum er sungið, dansað og leikið á ýmis ásláttarhljóðfæri og einnig er kennt á blokkflautu.   

Nokkrir fatlaðir nemendur eru í Tónlistarskólanum og hefur þeim verið veittur forgangur að námi þegar sýnt þykir að það komi þeim til góða. Margir nemendur sem stundað hafa nám við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar eru nú starfandi tónlistarmenn.

Árið 2008 var stofnuð ný deild við skólann sem fékk nafnið Tónkvísl og fékk Tónlistarskólinn til afnota íþróttahúsið við Gamla Lækjarskóla. Ráðist var í að breyta búningsklefum í kennslustofur og gera íþróttasalinn að tónleikasal og tókst þessi breyting mjög vel. Tónkvísl er rytmiskur skóli þar sem mikil áhersla er lögð á spuna og samspil. Auk þess að fá hljóðfæratíma sækja nemendur samspilstíma. Í Tónkvísl læra nemendur helst á rafgítar, rafbassa, hljómborð,  jazzpíanó, slagverk og einstök blásturshljóðfæri. 

Tónlistarskólinn býr nú við afbragðs aðstöðu, bæði hvað varðar húsa- og hljóðfærakost, og hefur einnig afnot af Hásölum til námskeiða-, ráðstefnu-, og tónleikahalds. Skólinn hefur allt hið besta að bjóða nemendum og má þar fyrst og fremst nefna vel menntaða og áhugasama kennara.
Mjög öflug foreldrafélög starfa fyrir lúðra- og kammersveit skólans og vinna þau ómetanlegt starf.


Tónlistarskóli Hafnarfjarðar | tonhaf@hafnarfjordur.is | Strandgötu 51 | 220 Hafnarfirði | Pósthólf 23
Sími 555 2704 | Bréfsími 565 4909